Sjávarútvegur.

(Mál nr. 6411/2011)

A kvartaði f.h. útgerðarinnar B ehf. yfir því að Fiskistofa hefði ekki talið skilyrði fyrir endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 13. september 2007 um að hafna flutningi grásleppuleyfis frá bátnum X til bátsins Y. A hafði lagt fram bréf til Fiskistofu þar sem fjallað var um samskipti við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varðandi nýtingu og flutning grásleppuveiðileyfis. Fiskistofa taldi ekki skilyrði til endurupptöku málsins þrátt fyrir upplýsingar sem komu fram í bréfinu og synjaði beiðni B ehf. með ákvörðun 2. september 2010 en ákvað þó að framsenda ráðuneytinu bréfið til að það gæti metið og ákveðið hvort þar kæmi eitthvað fram sem hefði þýðingu í málinu og ætti að leiða til þess að Fiskistofa endurupptæki málið eða ráðuneytið endurskoðaði fyrri ákvarðanir sínar í málinu. Í kvörtun A kom einnig fram að hann teldi reglugerð nr. 120/2007, sem upphafleg ákvörðun Fiskistofu frá 13. september 2007 byggðist á, ekki styðjast við skýra lagastoð. Ákvörðunin væri því ólögmæt og bryti gegn eignar- og atvinnurétti A sem verndaður væri í 72. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Umboðsmanni var ekki kunnugt um að A hefði kært ákvörðun Fiskistofu um að synja um endurupptöku málsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins innan kærufrests og gat því ekki tekið þennan þátt kvörtunarinnar til frekari meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. maí 2011. Þar tók hann fram að honum væri ekki kunnugt um afdrif málsins hjá ráðuneytinu, að því leyti sem það hafði verið framsent þangað, en benti A á að hann gæti leitað til sín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, teldi hann ástæðu til. Þar sem upphafleg ákvörðun Fiskistofu um að hafna flutningi grásleppuleyfisins var frá 13. september 2007 og kvörtun A barst umboðsmanni 20. apríl 2011 var ljóst að ársfrestur 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 var liðinn, auk þess sem ákvörðunin var ekki kærð til æðra setts stjórnvalds, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Því voru ekki skilyrði uppfyllt að lögum til að umboðsmaður tæki afstöðu til þeirrar afgreiðslu Fiskistofu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast út af kvörtun A og ákvað að ljúka umfjöllun sinni um mál hans, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.