05. maí 2014

Hlutverk ríkislögmanns og annarra stjórnvalda þegar bótakröfum er beint að ríkissjóði

Settur umboðsmaður Alþingis hefur sent heilbrigðisráðherra og ríkislögmanni bréf þar sem vikið er að hlutverki ríkislögmanns og annarra stjórnvalda þegar bótakröfum er beint að ríkissjóði, eins og lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann, er háttað.


Bréf setts umboðsmanns til þessara stjórnvalda eru rituð í framhaldi af athugun hans á kvörtun einstaklings sem hafði beint bótakröfu til Landspítala háskólasjúkrahúss eftir að álit landlæknis í máli hans lá fyrir. Spítalinn áframsendi erindi hans til ríkislögmanns sem hafnaði bótaskyldu á grundvelli þess að bótakrafan væri fyrnd samkvæmt lögum nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Kvörtun viðkomandi einstaklings til umboðsmanns laut m.a. að töfum á meðferð málsins hjá landlækni og að krafan hefði fyrnst á meðan málið var þar til meðferðar.

Umboðsmaður óskaði eftir afstöðu velferðarráðuneytisins til málsins. Í skýringum þess kom m.a. fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 51/1985, um ríkislögmann, væri það ríkislögmaður sem færi með uppgjör bótakrafna sem beint væri að ríkissjóði. Á grundvelli gildandi laga um fyrningu væru ekki í gildi neinar undantekningar varðandi fyrningu mála í þessum málaflokki eða önnur fyrirmæli sem kvæðu á um að slík mál væru undanþegin fyrningu. Með vísan til þessa taldi ráðuneytið sig ekki getað tekið afstöðu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldna sinna til þess hvort tilefni væri til þess að íslenska ríkið bæri ekki fyrir sig fyrningu vegna krafna um viðurkenningu á bótaskyldu sem beint hefði verið til ríkislögmanns.

Í bréfi setts umboðsmanns til velferðarráðuneytisins kom fram að af 2. gr. laga nr. 51/1985 og lögskýringargögnum yrði ekki annað ráðið en að þrátt fyrir að lögin fælu í sér umboð til handa ríkislögmanni til málflutnings og uppgjörs bótakrafna, sem beint væri að ríkinu, lægi ákvörðunarvald um það hvort bótaskylda væri viðurkennd í einstökum tilvikum eftir sem áður hjá þeim aðilum sem kröfum væri beint að þótt ríkislögmaður kynni að veita stjórnvöldum ráðgjöf vegna slíkra mála. Með vísan til þess taldi hann að það væri á hendi ráðuneytis heilbrigðismála að taka afstöðu til bótakrafna sem beint væri að ríkinu vegna mistaka sem ættu sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Af þessu leiddi að afstaða ríkislögmanns til umrædds erindis girti ekki fyrir að ráðuneytið tæki afstöðu til kröfu viðkomandi einstaklings.

Þá tók settur umboðsmaður fram að þótt sjónarmið væru uppi um að skaðabótakrafa viðkomandi væri fyrnd útilokaði það ekki að ráðuneytið tæki afstöðu til bótakröfunnar og tæki í framhaldinu ákvörðun um hvort leita ætti leiða til að rétta hlut viðkomandi, teldi það á annað borð að stjórnvöld hefðu valdið viðkomandi tjóni með bótaskyldri háttsemi. Þrátt fyrir að engin skylda kynni að hvíla á ríkisvaldinu á grundvelli tiltekinnar kröfu væri því eftir sem áður heimilt á grundvelli almennra starfsskyldna sinna að taka ákvörðun um að rétta hlut viðkomandi. Enda þótt stjórnvöld hefðu svigrúm til mats á því hvort tilefni væri til að bregðast við með þeim hætti yrði sú ákvörðun engu að síður að byggjast á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og gæta þyrfti að jafnræði og samræmi í málum borgaranna.

Ábendingabréf umboðsmanns Alþingis til heilbrigðisráðherra.