10. nóvember 2017

Lífeyrissjóðir og eftirlit umboðsmanns

Eftirlit umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og einkaaðila sem hefur með lögum verið fengið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir.


Starfandi lífeyrissjóðum í landinu hefur ýmist verið komið á fót á grundvelli samninga aðila vinnumarkaðarins, svonefndum samningsbundnum lífeyrissjóðum, eða með beinum ákvæðum í lögum, svonefndum lögbundnum lífeyrissjóðum. Sem dæmi um síðarnefnda sjóði má nefna Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Umboðsmaður Alþingis hefur litið svo á að í tilviki hinna lögbundnu lífeyrissjóða, þar sem aðild að þeim leiðir af lögum og lögin kveða á um réttindi og skyldur sjóðfélaga, hafi verið um að ræða hluta af stjórnsýslu ríkisins og því féllu tiltekin lögbundin verkefni þeirra undir starfssvið umboðsmanns.

Með breytingum sem gerðar hafa verið að undanförnu á lögum um tiltekna lögbundna lífeyrissjóði, s.s. að hluta Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, hafa reglur um réttindi sjóðfélaga sem áður voru í lögum verið fluttar yfir í samþykktir sem sjóðirnir skulu setja sér. Þá hefur í dómum Hæstaréttar Íslands á allra síðustu árum verið litið svo á, m.a. vegna þeirra reglna sem nú eru í almennum lögum um lífeyrissjóði, að þessir lögbundnu lífeyrissjóðir hefðu ekki slíka sérstöðu að þeir teldust stjórnvöld í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig var það niðurstaða Hæstaréttar í dómi frá 29. október 2015 í máli nr. 115/2015 að Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda teldist ekki stjórnvald í þessum skilningi og þar var jafnframt vitnað til fyrri dóma í málum annarra lífeyrissjóða þar sem hliðstæð afstaða hafði komið fram, sbr. dóma réttarins í málum nr. 286/2007 og 352/2012. 
Á þessar lagabreytingar og afstöðu Hæstaréttar reynir þegar umboðsmaður tekur afstöðu til þess hvort starfsemi lögbundinna lífeyrissjóða heyri að einhverju marki undir starfssvið hans og eftirlit. Í þeim tilvikum þegar það kemur í hlut stjórnvalda að hafa eftirlit með lífeyrissjóðunum og samþykktum þeirra fellur slíkt eftirlit áfram undir starfssvið umboðsmanns.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk nýverið umfjöllun um kvörtun vegna ágreinings um kostnað sem viðkomandi var gert að greiða vegna innheimtu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda á vangreiddum lífeyrisiðgjöldum. Innheimtan var til komin vegna sérstakra lagaákvæða sem fela Söfnunarsjóðnum það verkefni að innheimta iðgjöld þeirra sem ekki tilgreina lífeyrissjóð á framtölum eða skilagreinum.

Í bréfi setts umboðsmanns frá 19. október sl. til þess sem kvartaði var bent á að með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar hefði hann ekki forsendur til að líta á Söfnunarsjóðinn sem stjórnvald. Þá var það afstaða setts umboðsmanns að hann hefði heldur ekki forsendur til að fullyrða að með hinu lögbundna verkefni sjóðsins hefði honum verið falið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Í því sambandi leit settur umboðsmaður m.a. til lögskýringargagna að baki viðkomandi lagaákvæðum og stöðu sjóðsins sem einkaaðila. Af þessum sökum félli það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvartanir sem lytu að framangreindri innheimtu Söfnunarsjóðsins. 

Settur umboðsmaður ritaði fjármála- og efnahagsráðherra einnig bréf 19. október sl. þar sem m.a. kom fram breytt afstaða umboðsmanns til stöðu Söfnunarsjóðsins vegna framangreinds dómafordæmis. Settur umboðsmaður taldi hins vegar tilefni til að vekja athygli ráðherra á málinu og hvort tilefni væri til að kveða skýrar í lögum á um þær reglur sem Söfnunarsjóðum bæri að fylgja við umrædda innheimtu.
Bréf setts umboðsmanns Alþingis til þess sem kvartaði er birt hér og bréfið til fjármála- og efnahagsráðherra er birt hér.