06. maí 2016

Laust starf lögfræðings auglýst

Laust er til umsóknar starf lögfræðings hjá umboðsmanni Alþingis.


Umboðsmaður Alþingis mun á næstunni ráða lögfræðing til starfa hjá embættinu.

Leitað er að einstaklingi með embættispróf í lögfræði eða grunnnám í lögfræði auk meistaraprófs í greininni auk þess sem æskilegt er að viðkomandi hafi lagt sig eftir stjórnsýslurétti eða skyldum greinum í námi eða hafi starfsreynslu á því sviði.
Um er að ræða krefjandi starf á sviði lögfræði. Lögð er áhersla á að umsækjendur geti unnið sjálfstætt að greiningu og úrlausn lögfræðilegra álitaefna og hafi gott vald á ritun texta á íslensku.

Þeir sem uppfylla ofangreindar hæfnikröfur og áhuga hafa á starfinu eru hvattir til að senda inn umsókn, einnig nýútskrifaðir lögfræðingar. Um starfskjör fer eftir kjarasamningi og nánara samkomulagi.

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun, starfsferil og annað skal senda á netfangið postur@umb.althingi.is eða á skrifstofu umboðsmanns Alþingis, Þórshamri, Templarasundi 5, 101 Reykjavík, merkt: Starfsumsókn - lögfræðingur. Umsóknarfrestur er til og með 24. maí nk. Upplýsingar um starfið eru veittar hjá umboðsmanni Alþingis í síma 510 6700.

Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og sinnir því með úrvinnslu kvartana og málum sem hann tekur upp að eigin frumkvæði. Í störfum hjá umboðsmanni Alþingis reynir því á reglur um hin ýmsu svið stjórnsýslunnar auk lögfræðilegra álitaefna á sviði stjórnskipunar og mannréttindareglna. Embættið býr yfir góðu lögfræðibókasafni á sínu sviði og starfsfólk er hvatt til endurmenntunar. Nánari upplýsingar um starf umboðsmanns Alþingis má sjá á vefsíðu embættisins: www.umbodsmadur.is.